Í línunni CRAFTED FOR LEXUS myndar handverk sem hefur sannað sig í gegnum tíðina og nútímaleg hönnun í sameiningu einstaka vörulínu. Tvær glænýjar vörur hafa nú bæst við sístækkandi línuna.
„Við viljum gjarnan sjá að handunnu vörurnar okkar veki áhuga ungs fólks á hefðbundnu handverki og starfsgreinum á þeim vettvangi,“ segja Hiromichi Yumoto og Takefumi Momose hjá SEE SEE, sem er japanskt vörumerki á sviði húsbúnaðar sem sérhæfir sig í hinni fornu handverkshefð Hikimono. Rætur Hikimono liggja allt aftur til Yayoi-tímabilsins og er hefðin ríkust í héraðinu Shizuoka þar sem handverksmeistarar á borð við Momose og hönnuðir á borð við Yumoto vinna saman að gerð viðaríláta og skála með rokkum og rennibekkjum. „Vörumerkið okkar státar af gæðum sem einungis er hægt að ná fram með hefðbundnum, gamalgrónum starfsháttum. Sérhvert sköpunarverk okkar felur þó í sér nútímalega hönnun sem höfðar til frumkvöðla um allan heim.“
Frá því að fyrsta línan í CRAFTED FOR LEXUS kom fram á sjónarsviðið árið 2013 hefur Lexus haft það að markmiði að færa heiminum gæðahandverk sem á sér ríka sögu en er jafnframt nútímalegt – eins og Hikimono-hlutirnir frá SEE SEE. Ný kynslóð afar færra handverksmeistara stendur að línunni, sem hefur að geyma ýmsar lífsstílsvörur sem eru einstakar fyrir vörumerkið og eru í samræmi við þá skuldbindingu Lexus að bjóða aðeins upp á það besta í handverki og hönnun. Í vörulistanum er að finna handverk frá leirmunaframleiðandanum One Kiln og handofin sjöl frá Niime Tamaki, sem og netta skrifborðslampa frá Bsize og handunnin sólgleraugu frá Kaneko Optical. Vörurnar eru seldar og sýndar hjá INTERSECT BY LEXUS í Tókýó, Dubai og bráðlega í glænýju sýningarrými vörumerkisins í New York. Nýlega bættist snældulaga Hikimono-bakki frá SEE SEE við sívaxandi línu japanskra vara.