Lexus á Íslandi

FORNT HANDVERK Í BLAND VIÐ NÝJA HÖNNUN

Í línunni CRAFTED FOR LEXUS myndar handverk sem hefur sannað sig í gegnum tíðina og nútímaleg hönnun í sameiningu einstaka vörulínu. Tvær glænýjar vörur hafa nú bæst við sístækkandi línuna.

„Við viljum gjarnan sjá að handunnu vörurnar okkar veki áhuga ungs fólks á hefðbundnu handverki og starfsgreinum á þeim vettvangi,“ segja Hiromichi Yumoto og Takefumi Momose hjá SEE SEE, sem er japanskt vörumerki á sviði húsbúnaðar sem sérhæfir sig í hinni fornu handverkshefð Hikimono. Rætur Hikimono liggja allt aftur til Yayoi-tímabilsins og er hefðin ríkust í héraðinu Shizuoka þar sem handverksmeistarar á borð við Momose og hönnuðir á borð við Yumoto vinna saman að gerð viðaríláta og skála með rokkum og rennibekkjum. „Vörumerkið okkar státar af gæðum sem einungis er hægt að ná fram með hefðbundnum, gamalgrónum starfsháttum. Sérhvert sköpunarverk okkar felur þó í sér nútímalega hönnun sem höfðar til frumkvöðla um allan heim.“

Frá því að fyrsta línan í CRAFTED FOR LEXUS kom fram á sjónarsviðið árið 2013 hefur Lexus haft það að markmiði að færa heiminum gæðahandverk sem á sér ríka sögu en er jafnframt nútímalegt – eins og Hikimono-hlutirnir frá SEE SEE. Ný kynslóð afar færra handverksmeistara stendur að línunni, sem hefur að geyma ýmsar lífsstílsvörur sem eru einstakar fyrir vörumerkið og eru í samræmi við þá skuldbindingu Lexus að bjóða aðeins upp á það besta í handverki og hönnun. Í vörulistanum er að finna handverk frá leirmunaframleiðandanum One Kiln og handofin sjöl frá Niime Tamaki, sem og netta skrifborðslampa frá Bsize og handunnin sólgleraugu frá Kaneko Optical. Vörurnar eru seldar og sýndar hjá INTERSECT BY LEXUS í Tókýó, Dubai og bráðlega í glænýju sýningarrými vörumerkisins í New York. Nýlega bættist snældulaga Hikimono-bakki frá SEE SEE við sívaxandi línu japanskra vara.

„Þegar ég byrjaði að velta þessu verkefni fyrir mér fannst mér áhugavert að búa til Hikimono-ílát byggt á einum mikilvægasta útlitsþætti Lexus: snældulaga grillinu,“ segir Yumoto. Þannig að Yumoto (hönnunarséníið á bak við SEE SEE) og Momose (handverksmaðurinn, sem framleiðir meira að segja eigin hnífsblöð og vélbúnað) hófust handa við að þróa sérstakan snældulaga Hikimono-bakka fyrir CRAFTED FOR LEXUS.

Smíði þessa einstaka viðaríláts fólst í ferli þar sem Momose teiknaði uppdrátt út frá hönnun Yumoto, bjó til frumgerð og aðlagaði síðan stærðina og útskurðinn þangað til báðir voru ánægðir. „Ég reyndi eins og ég gat að ná réttri skurðardýpt til að endurspegla fallegar línur snældulaga grillsins,“ segir Momose. „Almennt er aðeins útskurður öðrum megin í Hikimono, en í snældulaga bakkanum okkar er útskurður bæði að innan og utan.“

Tvíeykið fékk svo til liðs við sig handverksmeistara í telitun sem lituðu útskorna viðarbakkann í djúpum, svörtum tóni. Útkoman dregur fallega fram einstaka áferð hvíta askviðarins sem skín í gegnum telitinn. „Okkur fannst mikilvægt að koma til skila lúxustilfinningunni sem Lexus er frægur fyrir,“ segir Yumoto. „Hikimono hefur ekki þetta hágæðayfirbragð vegna útlits viðaræðanna, og þess vegna nýttum við okkur telitunaraðferðina til að gera útlitið sérstæðara. Glerhúðunin og einkennandi mynstur snældulaga bakkans minna á lúxusinn og fullkomnunina sem Lexus-vörumerkið er þekkt fyrir.“

Til viðbótar við snældulaga bakkann frá SEE SEE hefur Lexus kynnt til sögunnar annan nýjan hlut í línunni CRAFTED FOR LEXUS: glært og grænblátt glas frá Studio Kobin, sem fæst í tveimur mismunandi stærðum. Studio Kobin hefur aðsetur í héraðinu Fukuoka og handverksmaðurinn á bak við það, Toshiyasu Nakamura, vinnur með Kiriko-glerskurð – hefðbundið handverk þar sem skærir litir og margbreytileg mynstur eru skorin í gler til að búa til glerglös og skrautmuni. „Yfirleitt er Kiriko-gler í skærum litum, eins og bláum eða rauðum, en ég valdi glært og grænblátt gler til að skapa róandi yfirbragð og samhljóm,“ útskýrir Nakamura. Nakamura, sem vann áður við tréskurð, er vanur að vinna öðruvísi en aðrir Kiriko-handverksmeistarar og setja mark sitt á alla hönnun sína. „Ég sker gler eins og ég myndi skera við,“ segir Nakamura. „Flestir Kiriko-handverksmenn fara mjög varlega með gler og fylgja línum sem þeir hafa dregið fyrirfram. Ég sker glerið aftur á móti fríhendis, eins og tréskurðarmaður myndi gera. Það er orðinn minn stíll.“

Kiriko, einstök japönsk hefð þar sem fágað mynstur er handskorið í gler – og litur bræddur saman við það – endurspeglar ljós á afar sérstæðan hátt, allt eftir því hvernig ljósið fellur á það og eftir sjónarhorni þess sem horfir á það

Fyrir samstarfið með CRAFTED FOR LEXUS sótti Studio Kobin innblástur í glæsilegt innanrými Lexus LS, þar sem finna má áhersluatriði með glerskurði frá Nakamura og öðrum Kiriko-glerskurðarmönnum. Fjölmargir einstæðir þættir í LS minna á listfengi takumi-meistaranna hjá Lexus: Fyrir LS er notaður sérstakur Kiriki-glerskurður fyrir hurðarklæðningar að innanverðu, sem er fallegur og fágaður en þó sterkur, þökk sé nýjustu tækni við sérstyrkingu glers.

LISTFENGI SEM ALDREI FYRR Í NEINUM BÍL

Mynstrið í glæru og grænbláu glösunum frá Studio Kobin er það sama og á hurðarklæðningunum í LS, og endurspeglar hreyfinguna og einstakan gljáann. „Ég bað færustu glerblásara að skapa einstakt glas með frjálsri blásturstækni, þannig að hver einasti hlutur fengi sérstaka lögun,“ segir Nakamura. „Engin tvö glös eru eins vegna þess að ég laga skurðinn, þykkt línanna og skurðarhornið að lögun hvers og eins glass.“

Hvort sem um er að ræða Hikimono-viðarskurð eða Kiriko-glerskurð eiga bæði snældulaga bakkinn frá SEE SEE og glösin frá Studio Kobin sér margar og mismunandi sögur sem aðeins sérsmíðaðir hlutir geta sagt. Þetta eru svo sannarlega handsmíðaðir hlutir sem bera fagurt vitni um besta hugsanlega handverk, og þess vegna eru þeir tilvalin viðbót í línuna CRAFTED FOR LEXUS.